Constructor er byggingarleikur þar sem takmarkið er að byggja byggingar, græða pening, og klára verkefni. Þú hefur aðeins 5 kort til að byggja á, sem er stór galli. Constructor er mjög fyndinn og hefur ekki vott af alvarleika, svo ef þú fílar ekki fyndna leiki, þá er þessi ekki fyrir þig.
Constructor er djúpur og hefur marga möguleika, þar með talinn möguleikann til að nota lögreglu, glæpona og tæki og tól til að vinna andstæðinga þína, og gera íbúana ánægða. Ef íbúarnir eru óánægðir, fara þeir og hætta að borga þér og þú færð ekki auka vinnuafl (sem byggir byggingar og breytast í viðgerðarmenn og gangstera) og leigjendur (sem búa í húsunum). Vinnumenn geta líka tekið yfir byggingar og ráðist á vinnumenn andstæðingsins. Viðgerðarmenn hafa það verkefni að laga byggingarnar, meðan gangsterarnir geta ráðist á andstæðinginn mun betur en vinnumenn, og eru einu persónurnar sem geta ráðist á byggingar.
Gervigreindin í Constructor er miskunnarlaus, og hikar ekki við að byggja á þínu landi, taka yfir og eyðileggja byggingarnar þínar, og eyðileggja allt. Grafíkin er mjög vel gerð miðað við frumstæðar aðstæður. Hljóðið er vel gert, þó að það sé ekki með bestu gæðum. Þessi leikur er skemmtilegur því að hann er fullur af sjarma og það kemur á óvart hversu háður honum maður verður, þegar maður er kominn inn í hann.
Constructor hefur nokkra galla. Þó að allt sé frekar auðvelt að nota, þá er það mjög pirrandi að maður getur ekki notað hægri músarhnappinn til að færa vinnumennina, sem verður mjög pirrandi þegar maður er að reyna að byggja upp svæði á skömmum tíma áður en gervigreindin ryðst inn. Leikurinn hefur ekki mikinn fjölbreytileika heldur, og eftir að þú hefur kynnst sjarmanum og skemmtuninni, verður hann fljótlega leiðinlegur.
Yfirhöfuð er Constructor mjög skemmtilegur leikur. Hann virkar vel í dosbox, en mundu eftir að "disable" video-senurnar, þar sem sumar þeirra vantar.